text
stringlengths 0
2.14k
|
---|
"Eigi ætla eg hlátur hennar jafngóðan sem þú," segir Ósvífur, "en það mun þó síðar reynast." |
Þau ríða þar til er þau koma heim. Um kveldið sat hún hjá bónda sínum og skipaði Þjóstólfi hið næsta sér innar frá. Fátt áttust þeir við Þjóstólfur og Þorvaldur og varð þeim fátt að orðum og fór svo fram um veturinn. |
Hallgerður var fengsöm og stórlynd enda kallaði hún til alls þess er aðrir áttu í nánd og hafði allt í sukki. En er voraði var þar búskortur og skorti bæði mjöl og skreið. |
Hallgerður kom að máli við Þorvald og ræddi: "Eigi munt þú þurfa að sitja til alls því bæði þarf í búið mjöl og skreið." |
Þorvaldur mælti: "Ekki fékk eg nú minna til bús en vant var og entist þá allt á sumar fram." |
Hallgerður mælti: "Ekki fer eg að því þó að þú hafir svelt þig til fjár og faðir þinn." |
Þá reiddist Þorvaldur og laust hana í andlitið svo að blæddi og gekk síðan í braut og kvaddi húskarla sína með sér og hrundu þeir fram skútu og hljópu þar á átta karlar og reru út í Bjarneyjar. Tók hann þar skreið sína og mjöl. |
Nú er að segja frá Hallgerði að hún sat úti og var skapþungt. |
Þjóstólfur gekk að og sá að hún var særð í andlitinu og mælti: "Hví ert þú svo illa leikin?" |
"Þorvaldur veldur því bóndi minn," sagði hún, "og stóðst þú mér þá fjarri ef þér þætti nokkuð undir um mig." |
"Eg vissi eigi," segir hann, "en þó skal eg þessa hefna." |
Síðan gekk hann á braut og til fjöru og hratt fram skipi sexæru og hafði í hendi öxi mikla er hann átti, vafinskeftu. Hann stígur á skip og rær út í Bjarneyjar. Og er hann kom þar voru allir menn rónir nema Þorvaldur og förunautar hans. Hann var að hlaða skútuna en þeir báru á út, menn hans. |
Þjóstólfur kom að í því og hljóp upp á skútuna og hlóð með honum og mælti: "Bæði ert þú að þessu lítilvirkur og óhagvirkur." |
Þorvaldur mælti: "Hyggst þú munu betur gera?" |
"Það eitt munum við að hafast að eg mun betur gera en þú," segir Þjóstólfur, "og er sú kona illa gift er þú átt og skyldu ykkrar samfarar skammar vera." |
Þorvaldur þreif upp handsax eitt er var hjá honum og leggur til Þjóstólfs. Þjóstólfur hafði öxina á öxl sér og laust á mót og kom á hönd Þorvaldi og brotnaði handleggurinn en saxið féll niður. Síðan færði Þjóstólfur upp öxina í annað sinn og hjó í höfuð Þorvaldi og hafði hann þegar bana. |
**12. kafli** |
Þá fóru þeir ofan, menn Þorvalds, með byrðarnar. Þjóstólfur tók til ráða skjótt. Höggur hann þá tveim höndum borð skútunnar og gekk sundur borðið um tvö rúm, og hljóp í skip sitt. En á skútunni féll inn sær kolblár og sökk hún niður með öllum farminum. Þar sökk og niður lík Þorvalds og máttu förunautar hans eigi sjá hversu hann var til ger en hitt vissu þeir að hann var dauður. |
Þjóstólfur reri inn á fjörðinn en þeir báðu hann illa fara og aldrei þrífast. Hann svaraði engu og reri inn á fjörðinn og þar til er hann kom heim og brýndi upp skipinu og gekk heim og hafði uppi öxina og var hún blóðug mjög. |
Hallgerður var úti og mælti: "Blóðug er öx þín. Hvað hefir þú unnið?" |
"Nú hefi eg það að gert," segir hann, "að þú munt gefin vera í annað sinn." |
"Dauðan segir þú mér Þorvald þá," segir hún. |
"Svo er," sagði hann, "og sjá þú nú nokkurt ráð fyrir mér." |
"Svo skal vera," sagði hún. "Eg vil senda þig norður til Bjarnarfjarðar á Svanshól og mun Svanur taka við þér báðum höndum. Er hann svo mikill fyrir sér að þangað sækir þig engi." |
Hann söðlaði hest er hann átti og steig á bak og reið norður til Bjarnarfjarðar á Svanshól og tók Svanur við honum báðum höndum og spurði hann að tíðindum. En Þjóstólfur segir honum víg Þorvalds með þeim atburðum er orðið höfðu. |
Svanur mælti: "Slíkt kalla eg menn er eigi láta sér allt í augu vaxa að gera og mun eg því heita þér ef þeir sækja þig hingað að þeir skulu fá af því hina mestu svívirðing." |
Nú er þar til máls að taka er Hallgerður er að hún kvaddi til ferðar með sér Ljót hinn svarta frænda sinn og bað hann söðla hesta þeirra "og vil eg ríða heim til föður míns." |
Hann bjó ferð þeirra. Hún gekk til kistna sinna og lauk upp og lét kalla til sín alla heimamenn sína og gaf þeim nokkura gjöf öllum en þeir hörmuðu hana allir. |
Nú reið hún þar til er hún kom á Höskuldsstaði og tók faðir hennar við henni vel því að hann hafði eigi spurt tíðindin. |
Höskuldur mælti til Hallgerðar: "Hví fór eigi Þorvaldur með þér?" |
Hún svaraði: "Dauður er hann." |
Höskuldur mælti: "Þjóstólfur mun því valda." |
Hún sagði svo vera. |
Höskuldur mælti: "Það mun mér síst í tauma ganga er Hrútur segir mér að hér mundi til mikillar ógiftu draga um kaup þessi en ekki mun týja að saka sig um orðinn hlut." |
Nú er þar til máls að taka er förunautar Þorvalds eru að þeir biðu til þess er skip komu að landi. Þeir sögðu víg Þorvalds og báðu sér skips inn til lands. Þeim var léð þegar. Og reru þeir inn að Reykjanesi og fundu Ósvíf og sögðu honum tíðindin. |
Hann mælti: "Illa gefast ills ráðs leifar. Og sé eg nú allt eftir hversu farið hefir. Hallgerður mun hafa sendan Þjóstólf til Bjarnarfjarðar en hún mun riðin heim til föður síns. Skulum vér nú safna liði og sækja hann norður þangað." |
Þeir gerðu svo og fóru í liðsbón. Varð þeim gott til manna og riðu til Steingrímsfjarðar og til Ljótárdals og þaða n til Selárdals og svo til Bassastaða og þaðan um hálsinn til Bjarnarfjarðar. |
Nú tók Svanur til orða og geispaði mjög: "Nú sækja að fylgjur Ósvífurs." |
Þá spratt Þjóstólfur upp og tók öxi sína. |
Svanur mælti: "Gakk þú út með mér. Lítils mun við þurfa." |
Síðan gengu þeir út báðir. |
Svanur tók geitskinn eitt og veifði yfir höfuð sér og mælti: |
Verði þoka |
og verði skrípi |
og undr öllum þeim |
er eftir þér sækja. |
Nú er frá því að segja að þeir ríða á hálsinn Ósvífur og hans förunautar. Þá kom þoka mikil í mót þeim. |
Ósvífur mælti: "Þessu mun Svanur valda og væri vel ef eigi fylgdi meira illt." |
Litlu síðar brá svo miklum sorta fyrir augu þeim að þeir sáu ekki og féllu þeir þá af baki og týndu hestunum og gengu í fen ofan sjálfir en sumir í skóginn svo að þeim hélt við meiðingar. Þeir töpuðu af sér vopnunum. |
Þá mælti Ósvífur: "Ef eg fyndi hesta mína og vopn þá mundi eg aftur hverfa." |