text
stringlengths
0
2.14k
Title: Brennu-Njáls saga
URL Source: https://www.snerpa.is/net/isl/njala.htm
**1. kafli**
Mörður hét maður er kallaður var gígja. Hann var sonur Sighvats hins rauða. Hann bjó á Velli á Rangárvöllum. Hann var ríkur höfðingi og málafylgjumaður mikill og svo mikill lögmaður að engir þóttu löglegir dómar dæmdir nema hann væri við. Hann átti dóttur eina er Unnur hét. Hún var væn kona og kurteis og vel að sér og þótti sá bestur kostur á Rangárvöllum.
Nú víkur sögunni vestur til Breiðafjarðardala. Maður er nefndur Höskuldur. Hann var Dala-Kollsson. Móðir hans hét Þorgerður og var dóttir Þorsteins hins rauða, Ólafssonar hins hvíta, Ingjaldssonar, Helgasonar. Móðir Ingjalds var Þóra, dóttir Sigurðar orms í auga, Ragnarssonar loðbrókar. Unnur hin djúpúðga var móðir Þorsteins rauðs, dóttir Ketils flatnefs, Bjarnarsonar bunu. Höskuldur bjó á Höskuldsstöðum í Laxárdal.
Hrútur hét bróðir hans. Hann bjó á Hrútsstöðum. Hann var sammæður við Höskuld. Faðir hans var Herjólfur. Hrútur var vænn maður, mikill og sterkur, vígur vel og hógvær í skapi, manna vitrastur, hagráður við vini sína en tillagagóður hinna stærri mála.
Það var einu hverju sinni að Höskuldur hafði vinaboð og þar var Hrútur bróðir hans og sat hið næsta honum. Höskuldur átti sér dóttur er Hallgerður hét. Hún lék sér á gólfi við aðrar meyjar. Hún var fríð sýnum og mikil vexti og hárið svo fagurt sem silki og svo mikið að það tók ofan á belti.
Höskuldur kallar á hana: "Far þú hingað til mín," sagði hann.
Hún gekk þegar til hans. Hann tók undir hökuna og kyssti hana. Síðan gekk hún í braut.
Þá ræddi Höskuldur til Hrúts: "Hversu líst þér á mey þessa, þykir þér eigi fögur vera?"
Hrútur þagði við. Höskuldur talaði til annað sinn.
Hrútur svaraði þá. "Ærið fögur er mær sjá og munu margir þess gjalda. En hitt veit eg eigi hvaðan þjófsaugu eru komin í ættir vorar."
Þá reiddist Höskuldur og var fátt um með þeim bræðrum nokkura hríð.
Bræður Hallgerðar voru þeir Þorleikur, faðir Bolla, og Ólafur, faðir Kjartans, og Bárður.
**2. kafli**
Það var einu hverju sinni að þeir bræður riðu til alþingis, Höskuldur og Hrútur. Þar var fjölmenni mikið.
Þá ræddi Höskuldur við Hrút: "Það vildi eg bróðir að þú bættir ráð þitt og bæðir þér konu."
Hrútur svarar: "Lengi hefir mér það í hug verið og hefir mér þó tvennt um sýnst. En nú vil eg gera að þínu skapi eða hvar skulum við á leita?"
Höskuldur svaraði: "Hér eru nú höfðingjar margir á þingi og er gott um að velja en þó hefi eg í einum stað á stofnað fyrir þína hönd. Kona heitir Unnur og er dóttir Marðar gígju, hins vitrasta manns, og er hann hér á þingi og svo dóttir hans og mátt þú nú sjá hana ef þú vilt."
Og annan dag eftir er menn gengu til lögréttu sáu þeir konur úti hjá Rangæingabúð, vel búnar.
Þá mælti Höskuldur við Hrút: "Þar er hún nú Unnur er eg sagði þér frá eða hversu líst þér á hana?"
"Vel," sagði hann, "en eigi veit eg hvort við eigum heill saman."
Síðan ganga þeir til lögréttu. Mörður gígja mælti lögskil að vanda sínum og gekk heim til búðar sinnar. Höskuldur stóð upp og Hrútur og gengu til búðar Marðar og inn í búðina. Mörður sat í innanverðri búðinni. Þeir kvöddu hann. Hann stóð upp í mót þeim og tók í hönd Höskuldi og settist hann niður hjá honum en Hrútur sat hið næsta Höskuldi.
Síðan töluðu þeir margt og komu þar niður ræður Höskulds að "eg mæli til kaupa við þig. Vill Hrútur gerast mágur þinn og kaupa dóttur þína og skal eg eigi mitt til spara."
Mörður svaraði: "Veit eg að þú ert höfðingi mikill en bróðir þinn er mér ókunnigur."
Höskuldur mælti: "Framar er hann en eg."
Mörður mælti: "Mikið munt þú þurfa fram að leggja með honum því að hún á allan arf eftir mig."
"Eigi þarf og lengi að bíða hvað eg skal á kveða," sagði Höskuldur, "hann skal hafa Kambsnes og Hrútsstaði og upp til Þrándargils. Hann á og kaupskip í siglingum."
Hrútur talaði þá til Marðar: "Hugsa svo um bóndi að bróðir minn mun mér mjög hafa fram haldið fyrir ástar sakir. En ef þér viljið gera málið að álitum þá vil eg að þér gerið kostinn."
Mörður svaraði: "Hugsað hefi eg kostinn. Hún skal hafa sex tigu hundraða og skal aukast þriðjungi í þínum garði en ef þið eigið erfingja þá skal vera helmingarfélag með ykkur."
Hrútur mælti: "Þenna kost vil eg og höfum nú votta við."
Síðan stóðu þeir upp og tókust í hendur og fastnaði Mörður Hrúti dóttur sína Unni og skyldi boð vera hálfum mánuði eftir mitt sumar að Marðar.
Nú ríða þeir heim af þingi hvorirtveggju og ríða þeir vestur hjá Hallbjarnarvörðum. Þá reið í mót þeim Þjóstólfur, son Bjarnar gullbera úr Reykjardal, og sagði þeim skipkomu í Hvítá og var þar kominn út Össur föðurbróðir Hrúts og vildi að Hrútur kæmi til fundar við hann sem fyrst. En er Hrútur spurði þetta þá bað hann Höskuld fara til skips með sér. Höskuldur fór og þeir báðir.
En er þeir komu til skips fagnar Hrútur Össuri frænda sínum vel og blíðlega. Össur bauð þeim inn í búð að drekka. Síðan var tekið af hestum þeirra og gengu þeir inn og drukku.
Hrútur mælti til Össurar: "Nú skalt þú ríða vestur með mér frændi og vera með mér í vetur."
"Eigi hendir svo," sagði hann, "því að eg segi þér lát Eyvindar bróður þíns en hann leiddi þig til arfs á Gulaþingi og munu nú taka óvinir þínir ef þú kemur eigi til."
"Hvað er nú til ráðs bróðir?" sagði Hrútur, "þykir mér nú vandast málið er eg hefi áður ráðið brúðlaup mitt."
Höskuldur mælti: "Þú skalt ríða suður til fundar við Mörð og bið hann að þið skipið máldaga annan og sitji dóttir hans þrjá vetur í festum. En eg mun ríða heim og flytja vöru þína til skips."
Hrútur mælti: "Nú vil eg að þú takir mjöl og við og slíkt annað sem þér líkar af varningi."
Hrútur lét taka hesta sína og reið hann suður en Höskuldur reið heim vestur.
Hrútur kom austur á Rangárvöllu til Marðar og hafði þar góðar viðtökur. Hrútur sagði Merði allt efni sitt og bað hann ráð á leggja.
Mörður mælti og spurði hversu mikið fé það væri.
Hrútur sagði vera tvö hundruð marka ef hann fengi allt.
Mörður mælti: "Mikið er það í móti erfðinni minni og skalt þú víst fara ef þú vilt."
Síðan breyttu þeir máldaganum og skyldi Unnur sitja þrjá vetur í festum.
Nú ríður Hrútur til skips og er við skip um sumarið þar til er búið var. Höskuldur færði fé allt til skips það sem Hrútur átti. Hrútur fékk Höskuldi í hendur fjárvarðveislu sína vestur þar meðan hann væri utan. Reið Höskuldur heim til bús síns.
Litlu síðar gaf þeim byr og sigla þeir í haf. Þeir voru úti þrjár vikur og komu að við Hernar á Hörðalandi og sigldu síðan austur til Víkur.
**3. kafli**
Haraldur gráfeldur réð fyrir Noregi. Hann var sonur Eiríks blóðöxar Haraldssonar hins hárfagra. Gunnhildur hét móðir hans og var dóttir Össurar tota. Þau höfðu aðsetur austur í Konungahellu.
Nú spurðist skipkoman austur þangað til Víkurinnar. Og þegar er þetta fréttir Gunnhildur spurði hún eftir hvað íslenskra manna væri á skipi. Henni var sagt að Hrútur hét maður og var bróðursonur Össurar.

Njala datast

Njala is a thirtheen-century Icelandic saga that describes events in the years between 960 and 1020

This is intended to be the Icelandic "tiny Shakespeare" corpus, for testing purposes.

The raw text can be found here njala.txt. The text was gathered from snerpa.is

Downloads last month
30

Models trained or fine-tuned on Sigurdur/njala